Saga Skólamatar

Skólamatur ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum.

Fyrirtækið Skólamatur ehf. var stofnað í janúar 2007 en áður hafði Matarlyst ehf. rekið skólamötuneyti sem eina einingu innan fyrirtækisins. Fyrirtækið er í eigu Axels Jónssonar matreiðslumeistara sem hefur áratuga reynslu af alhliða veitingarekstri. Áhugi Axels fór að beinast að heitum skólamáltíðum eftir setu sína í skólanefnd Keflavíkurbæjar 1990. Út frá reynslu sinni þróaði hann viðskiptahugmynd sem varð að veruleika 1999 þegar hann hóf að bjóða börnum leik- og grunnskólum upp á hollar máltíðir, sérstaklega ætlaðar orkumiklum krökkum sem hafa þörf fyrir næringarríkan mat í erli dagsins. Í dag eru það börn Axels sem hafa tekið við keflinu af föður sínum og reka nú fyrirtækið Skólamat. Jón Axelsson er framkvæmdarstjóri og Fanný Axelsdóttir er mannauðs- og samskiptastjóri.  

Hjá Skólamat starfa um 170 starfsmenn á 85 starfsstöðvum á suðvesturhorni landsins. Starfsmannavelta fyrirtækisins er lág og starfsaldur hár. Rúmlega helmingur núverandi starfsmanna hefur unnið í 5 ár eða lengur hjá fyrirtækinu. Skólamatur leggur áherslu á að skapa fjölskylduvænt vinnuumhverfi þar sem hæfileikar, þekking og reynsla hvers starfsmanns fær að njóta sín. Áhersla er lögð á símenntun og fræðslu og að starfsmenn fái tækifæri til þess að eflast og þróast í starfi.

Fyrir mikilvægasta fólkið

Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á máltíðum fyrir mikilvægasta fólkið. Stærstur hluti okkar viðskiptavina eru nemendur á leik- og grunnskólaaldri.

Hjá Skólamat starfar samheldur hópur fólks sem hefur ástríðu fyrir því að framleiða og framreiða hollar og bragðgóðar máltíðir fyrir nemendur svo þau hafi orku til að sinna leik og starfi.

Skólamatur leggur allt upp úr ferskleika hráefnisins. Matseðlar eru vandaðir og vel samsettir og í uppfylla ráðleggingar landlæknisembættisins um næringu barna á leik- og grunnskólaaldri. Skólamatur notar aðeins hágæða hráefni og er allt kjöt, fiskur og kartöflur frá viðurkenndum íslenskum framleiðendum. Allar máltíðir eru lausar við MSG og transfitusýru.

Skólamatur er sífellt að leita leiða til þess að gera betur. Ef þú lumar á hugmynd um hvernig við getum bætt okkur enn frekar þá hvetjum við þig til þess að senda okkur línu á skolamatur@skolamatur.is