VERÐSKRÁ

Gjaldskrá fyrir skólaárið 2023-2024.

Gjaldskrá er ákveðin af sveitarfélögum og einungis er greitt fyrir mat þá daga sem skóli er samkvæmt skóladagatali. Athugið að þjónustusamningar sem Skólamatur starfar eftir eru misjafnir á milli sveitarfélaga.

  Máltíð í áskrift Stök máltíð
Garðabær 640 kr. 1.000 kr.
Grindavík 597 kr. 1.000 kr.
Hafnarfjörður 709 kr.  1.200 kr.
Keilir 1.143 kr. 
Kópavogur 594 kr. 1.000 kr.
Reykjanesbær 577 kr. 1.000 kr.
Seltjarnarnes 679 kr. 1.000 kr.
Suðurnesjabær 364 kr. 1.000 kr.

 

  10 miða kort 20 miða kort
Hafnarfjörður 11.445 kr.  
Reykjanesbær   14.548 kr.

 

  Ávaxtaáskrift Síðdegishressing
Grindavík 87 kr.
Hafnarfjörður 157 kr. 330 kr.
Seltjarnarnes 146 kr. 333 kr.
Suðurnesjabær 54 kr.  

 

Matarmiðar

Matarmiðar eru í boði í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Hægt er að kaupa matarmiða með því að smella á hnappinn Matarmiðar hér að ofan.

 

ALGENGAR SPURNINGAR

Reglulega berast fyrirspurnir til starfsfólks Skólamatar.
Hér fyrir neðan birtast algengar spurningar og svör við þeim.

 • Hvað geri ég ef barnið mitt þarf sérfæði?

  Skólamatur býður upp á sérfæði fyrir þá sem vegna ofnæmis, óþols, læknisfræðilegra einkenna, trúarbragða eða lífsstíls geta ekki neytt matar af matseðli.

 • Er alltaf boðið upp á vegan mat?

  Já, á hverjum degi er boðið upp á vegan-rétt. Meðlætisbar með fersku grænmeti og ávöxtum er í boði daglega ásamt úrvali af vegan-sósum.

 • Hvenær get ég sagt upp mataráskrift ?

  Uppsögn skal berast fyrir 25. mánaðarins á undan en hægt er að ganga frá uppsögn inni á Mínum síðum. Fyrsta tímabil vetrarins, frá skólabyrjun og til lok september, telst sem eitt tímabil. Einnig frá 1. maí til og með skólalokum.

 • Er maturinn hollur ?

  „Fyrir mikilvægasta fólkið“ eru einkunnarorðin okkar hjá Skólamat. Við göngum út frá því að framleiða hollar og næringarríkar máltíðir fyrir mikilvægasta fólkið. Næringargildi hvers réttar er reiknað út af næringarfræðingi Skólamatar. Ávallt er boðið upp á ávexti og grænmeti með matnum. Þegar um kolvetnisríkan mat er að ræða bjóðum við upp á heilhveitipasta og hýðishrísgrjón og mikil áhersla er lögð á gróft korn, heilnæmt og ferskt hráefni.

 • Fer næringarfræðingur yfir matseðla?

  Já, gæðastjóri Skólamatar er næringarfræðingur að mennt og fer yfir alla matseðla. Gæðastjóri gætir jafnvægis í matseðlum út frá öllum þeim næringarefnum sem eru börnum nauðsynleg. Næringargildi matseðla er vandlega útreiknað.

 • Hvernig sæki ég um mataráskrift?

  Sótt er um mataráskrift hér á síðunni www.skolamatur.is og mikilvægt er að gefa upp réttar upplýsingar, svo sem bekkjarheiti og annað. Hægt er að sækja um áskrift hvenær sem er en nýtt áskriftartímabil hefst í skólabyrjun og eftir það byrjar áskriftin 1. hvers mánaðar. Alltaf má þó semja um áskriftartímabil ef þetta fyrirkomulag hentar ekki. Þá er best að senda póst á skolamatur@skolamatur.is.

 • Getur einhver annar nýtt mataráskriftina mína?

  Áskrift er seld hverjum og einum nemanda og því mega aðrir ekki nýta mataráskrift eða ábót annarra.

 • Hvað ef ég er í áskrift en mæti ekki?

  Áskrift er seld í mánaðartímabilum óháð því hversu oft nemandi mætir í mat. Í einhverjum sveitarfélögum er boðið upp á að kaupa matarmiða þar sem nemandinn og/eða foreldrar ákveða hvenær hann er í mat og hvenær ekki. Eins stendur öllum til boða að kaupa stakar máltíðir.

 • Af hverju er verðið ekki eins alls staðar?

  Gjaldskrá er ákveðin af sveitarfélögum og einungis er greitt fyrir mat þá daga sem skóli er samkvæmt skóladagatali. Skólamatur vinnur eftir þjónustusamningum sem er gerður við hvert og eitt sveitarfélag. Verðmunur skýrist meðal annars af innihaldi samnings og niðurgreiðslu sveitarfélaganna. Enginn virðisaukaskattur er á skólamáltíðum til nemenda.

 • Fá allir ábót?

  Öllum áskrifendum stendur til boða að fá hóflega ábót á hádegismat.

  Þegar hamborgarar, kjúklingabitar eða annar matur sem er skammtaður í einingum er á matseðli þá er ekki gefin ábót á aðalréttinn en ávallt stendur áskrifendum til boða að fá ábót á grænmeti, ávexti, kartöflur eða annað meðlæti.

 • Er maturinn eldaður í skólunum sjálfum?

  Í öllum þeim skólum þar sem aðstaða til eldunar er fyrir hendi er maturinn eldaður í skólanum sjálfum, þ.e.a.s. þar fer lokaeldun fram. Eina undantekningin á því er þegar um súpur eða grauta er að ræða en þá er matur sendur heitur í skólana. Ávextir og grænmeti er ávallt skorið niður á staðnum og er lögð áhersla á ferskleika og fjölbreytni í meðlætisbarnum.

 • Er veittur systkinaafsláttur?

  Gjaldskrá skólamáltíða er ákveðin af sveitarfélagi, eins og ákvarðanir um systkinaafsátt. Systkinaafsláttur er veittur í Hafnarfirði og Reykjanesbæ en ekki hjá öðrum sveitarfélögum sem Skólamatur þjónustar. Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær taka ákvarðanir um systkinaafslátt og hverjir eiga rétt á slíkum afslætti.

 • Hver eru þessi E-efni?

  Matvæli sem við kaupum úti í búð eru oft samsett úr nokkrum innihaldsefnum. Þessi innihaldsefni eru samsett úr orkuefnum (fitu, prótínum og kolvetnum) og stundum er aukefnum bætt við.

  Þessi aukefni eru efni sem bætti er í matvæli til að tryggja geymsluþol, viðhalda lit, verjast þránun, koma í veg fyrir að matvælin skilji sig og til að sæta matvæli svo dæmi séu tekin.

  Öll aukefni sem leyfð eru í matvæli hafa farið í gegnum mjög strangar rannsóknir hjá EFSA (Matvælaöryggisstofnun Evrópu). Ef þau eru leyfð fá þau E-númer. E stendur fyrir Evópa en alls ekki eiturefni eins og sumir virðast halda.

  Aukefnum er skipt í nokkra flokka:

  Aukefni sem byrja á 100 eru litarefni, t.d. E 160 sem er unnið úr gulrótum og gefur rauðleitan lit og E 161 sem er unnið úr grænu laufgrænmeti og gefur grænan lit. Nokkur litarefni sem eru efnafræðilega búin til og gefa mjög skæra liti (svokölluð azo-litarefni) eru talin óæskileg í of miklu magni og því þarf að takmarka notkun þeirra. Þetta eru litarefni sem hafa númerin E 102, E 110, E 129 og E 133.

  Aukefni sem byrja á 200 eru rotvarnarefni, t.d. E 201 bensóat, E 211 sorbat og E 250 nítrat. Þau eru notuð til að draga úr líkum á að hættulegar örverur (sýklar) eins og salmonella og listería geti fjölgað sér. Þau eru m.a. notuð í osta, kjötálegg, majones, salöt, súpur og sósur. Það er einkum gert til að tryggja matvælaöryggi og lengra geymsluþol en 2-4 daga. Rotvarnarefnin eru yfirleitt leyfð í takmörkuðu magni og í tiltekin matvæli, þ.e. þau eru ekki leyfð í hvaða matvæli sem er.

  Aukefni sem byrja á 300 eru þráavarnarefni, t.d. E 300 askorbínsýra (C-vítamín), E 306 tókóferól (E-vítamín) og E 320 BHA. Þráavarnarefni eru notuð m.a. til að koma í veg fyrir þráabragð í matvælum og líka til að koma í veg fyrir að matvæli verði brún og ókræsileg á litinn. Það síðastnefnda er talið óæskilegt í miklu magni og því einungis leyft í takmörkuðu magni og í mjög fá matvæli.

  Aukefni sem byrja á 400 eru bindiefni, t.d. E 401 algínat, E 414 arabískt gúmmí og E460 sellulósi. Þau eru ýmist unnin úr þörungum, soja eða gerjuðum kolvetnum. Þau eru mikið notuð í alls konar matvæli, til dæmis til að þykkja, koma í veg fyrir að matvælin skilji sig, verði kekkjótt, klessist eða lyfti sér ekki. Þau eru sögð óskaðleg eins og flest aukefni.

  Veljum okkur eitt dæmi úr máltíð hjá Skólamat til að skoða og margur myndi segja að hér væri fullt af E-efnum.

  Kjúklingasnitsel (kjúklingabringur (85%), raspur (hveiti, vatn, ger, salt, krydd, sykur, repjuolía, litarefni (E100, E160), sýrur (E262, E331), þráavarnarefni (E316)).

  Ef vel er að gáð er hér um að ræða kjúklingabringur með raspi og raspurinn er brauð sem hefur verið þurrkað og malað niður. Hér er E 100 og E 160 notað til að fá rauðan/gulan lit á raspinn. E 100 er túrmerik unnið úr túrmerikrótinni og E 160 er karótín unnið úr gulrótum. E262 er unnið úr ediksýru og E331 er unnið úr sítrónusýru (finnst t.d. í ávöxtum). Þessi aukefni eru oft notuð í hveiti til að bæta bökunareiginleika þess. E 316 er ákveðið form af C-vítamíni og er notað til verja repjuolíuna fyrir þránun.

  Í þessu dæmi eru aukefnin alveg jafn skaðlaus og hráefnin. Þeir sem eru með glútenóþol myndu ekki borða þessa vöru vegna hveitisins.

  Ef við viljum forðast aukefni eins og hægt er þá þurfum við að huga að eftirfarandi:

  Versla eins hrein matvæli og við getum (hreint kjöt, hreinan fisk, ómeðhöndlað grænmeti og ávexti (ýmist ferskt eða frosið), hreinar og þurrar kornvörur, baunir og linsur. Búa til matvæli eins og majones, sósur, súpur, krafta og þess háttar sjálf frá grunni og nota innan fárra daga.

  Það verður erfitt fyrir fyrirtæki eins og Skólamat að útiloka öll aukefni úr þeim matvælum sem þau bjóða upp á, bæði vegna öryggis þeirra en líka vegna krafna um framboð og fjölbreytni. Hins vegar er reynt að kappkosta við að takmarka notkun þeirra eins og kostur er.

  Það er vonandi að greinin hafi svarað einhverjum af þeim spurningum sem brenna á foreldrum og forráðmönnum vegna aukefna í matvælum.

  Með bestu kveðju,

  Guðrún Adolfsdóttir matvælafræðingur hjá Sýni ehf.

Sérfæði

Skólamatur er fyrir alla

Þeim sem geta ekki vegna ofnæmis, óþols, trúarbragða eða lífsstíls neytt matar af matseðli býðst að vera í sérfæði.

Skila þarf inn læknisvottorði ef sérfæðið er vegna ofnæmis eða óþols.

Sótt er um sérfæði á heimasíðunni okkar. Í áskriftarforminu er hakað við sérfæði og réttur/réttir flokkar valdir.

Ef óskað er eftir sérfæði eftir að mataráskrift er hafin eða ef breyting verður á sérfæði þarf að hafa samband við okkur í gegnum: serfaedi@skolamatur.is.

Ekki er greitt aukalega fyrir sérfæðisþjónustu.

Við tökum vel á móti ábendingum varðandi alla þá rétti sem í boði eru hjá fyrirtækinu.

Áskriftarskilmálar

Fyrsta áskriftartímabil gildir frá fyrsta skóladegi til septemberloka. Frá og með október til apríl fylgir hvert áskriftartímabil almanaksmánuði, frá fyrsta til síðasta dags mánaðar. Síðasta áskriftartímabil vetrarins gildir frá byrjun maí til skólaloka. Ekki er hægt að kaupa mataráskrift fyrir hluta úr áskriftartímabili.

Áskriftarsamningur framlengist sjálfkrafa óbreyttur milli áskriftartímabila nema beiðni um uppsögn eða breytingu á áskriftarvöru eða tímabili berist með sannanlegum hætti fyrir 25. mánaðarins á undan. Á mínum síðum Skólamatar er hægt að segja upp eða breyta áskrift. Staðfesting er send til baka í tölvupósti og tekur þá gildi við upphaf næsta áskriftartímabils eða í lok annars áskriftartímabils ef um það er beðið.

Uppsögn þarf að berast fyrir 25. mánaðarins á undan svo hún taki gildi næsta mánuð.

Áskrift ber að greiða í upphafi áskriftartímabils. Gjalddagi greiðslukrafna er 1. dagur áskriftarmánaðar og eindagi fimm dögum síðar. Reikningar teljast samþykktir nema gerðar séu sannanlegar athugasemdir eigi síðar en sjö dögum eftir upphaf áskriftartímabils.

Ef valið er að fá greiðsluseðil sendan í pósti leggjast 322 kr. við kröfuna. Ekkert greiðslugjald leggst á seðillausar greiðslukröfur sem birtast aðeins í heimabanka/netbanka. Ekkert aukagjald er lagt á ef greitt er með greiðslukorti. Ef ekki er heimild á greiðslukorti verður sendur greiðsluseðill á skráðan greiðanda. Ítrekun er send í pósti sjö dögum eftir eindaga og þá leggst einnig á hana kostnaður vegna innheimtubréfs, 950 kr.

Mataráskrift er einungis fyrir skráðan áskrifanda. Ekki er heimilt að nýta mataráskriftina fyrir annan en skráðan áskrifanda.

Hafi greiðsla ekki borist fyrir mataráskrift innan umsamins greiðslufrests er heimilt að hætta afgreiðslu skólamáltíða. Ef slíkt kemur upp og skuld er svo greidd á áskriftartímabili eftir að afgreiðslu skólamáltíða var hætt verður opnað fyrir áskrift án tilkynningar nema ef skrifleg uppsögn hefur borist á undan. Ef skuld er hins vegar greidd eftir að áskriftartímabili lýkur þarf að sækja um áskrift að nýju. Skal þá senda tölvupóst á skolamatur@skolamatur.is.

Sérfæði vegna ofnæmis eða óþols er afgreitt gegn afhendingu læknisvottorðs. Ef læknisvottorð berst eftir að næsta áskriftartímabil er hafið, hefst afgreiðsla sérfæðis næsta mánudag á eftir. Læknisvottorði skal skilað inn á skrifstofu Skólamatar ehf., Iðavöllum 3d, Reykjanesbæ eða í tölvupósti á serfaedi@skolamatur.is.

Skólamatur ehf. vekur athygli á að fyrirtækið getur ekki ábyrgst, jafnvel þótt um sérfæði sé að ræða, að í matvælum geti ekki verið ofnæmisvaldandi efni í snefilmagni.

Ekki er hægt að endurnýja áskrift ef umsækjandi/greiðandi er í vanskilum.

Farið er með allar persónuupplýsingar sem verða til vegna áskriftar og notkunar á vefsvæði Skólamatar ehf. í samræmi við lög og reglur um meðferð persónulegra upplýsinga eins og þær eru á hverjum tíma. Fullum trúnaði er heitið.

Aðeins er beðið um þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna afgreiðslu skólamáltíða og greiðslu. Persónuupplýsingar eru geymdar í gagnagrunni Skólamatar ehf. Á vefsíðu okkar notum við SSL-tækni til þess að senda upplýsingar örugglega í bókunarkerfi okkar.

Bókunarkerfi okkar geymir allar upplýsingar á dulkóðuðum tölvuþjóni. Allir tölvuþjónar sem við notum dulkóða upplýsingarnar þínar. Tölvukerfi okkar er varið með vírusvörnum sem leita reglulega að öryggisbresti.

Allir sem hafa aðgang að persónuupplýsingum eru bundnir trúnaði.

Við munum tilkynna án tafar ef það kemur upp öryggisbrestur er varðar persónuupplýsingar þínar. Með öryggisbresti er átt við brot á öryggi sem verður til þess að eyðing, breyting, birting eða aðgangur er veittur að persónuupplýsingum, óviljandi eða með ólögmætum hætti.