15. mars 2021

Hulunni svipt af aukefnum í matvælum

Hulunni svipt af aukefnum í matvælum

Hulunni svipt af aukefnum í matvælum !!

 

Matvæli sem við kaupum úti í búð eru oft samsett úr nokkrum innihaldsefnum. Þessi innihaldsefni eru samsett úr orkuefnum (fitu, próteinum og kolvetnum) og stundum er aukefnum bætt við.

Þessi aukefni eru efni sem bætti er í matvæli;  til að tryggja geymsluþol, viðhalda lit, verjast þránun, koma í veg fyrir að matvælin skilji sig og til að sæta matvæli svo dæmi séu tekin.

Öll aukefni sem leyfð eru í matvæli hafa farið í gegnum mjög strangar rannsóknir hjá EFSA (Matvælaöryggisstofnun Evrópu). Ef þau eru leyfð fá þau E-númer. E stendur fyrir Evópa en alls ekki eiturefni eins og sumir virðast halda.

Aukefnum er skipt í nokkra flokka:

Aukefni sem byrja á 100 eru litarefni. T.d. E 160 sem er unnið úr gulrótum og gefur rauðleitan lit og E 161 sem er unnið úr grænu laufgrænmeti og gefur grænan lit. Nokkur litarefni sem eru efnafræðilega búin til og gefa mjög skæra liti (svokölluð azo litarefni) eru talin óæskileg í of miklu magni og því þarf að takmarka notkun þeirra. Þetta eru litarefni sem hafa númerin E 102, E 110, E 129 og E 133.

Aukefni sem byrja á 200 eru rotvarnarefni. T.d. E 201 bensóat, E 211 sorbat og E 250 nítrat. Þau eru notuð til að minnka líkur á að hættulegar örverur (sýklar) eins og salmonella og listeria geti fjölgað sér. Þau eru m.a. notuð í osta, kjötálegg, majones, salöt, súpur og sósur einkum til að tryggja matvælaöryggi og lengra geymsluþol en 2-4 daga. Rotvarnarefnin eru yfirleitt leyfð í takmörkuðu magni og í tiltekin matvæli. Þ.e. þau eru ekki leyfð í hvaða matvæli sem er.

Aukefni sem byrja á 300 eru þráavarnarefni. T.d. E 300 askorbínsýra (C vítamín), E 306 tókóferól (E vítamín) og E 320 BHA. Þráavarnarefni eru notuð m.a. til að koma í veg fyrir þráabragð í matvælum og líka til að koma í veg fyrir að matvæli verði brún og ókræsileg á litinn. Það síðastnefnda er talið óæskilegt í miklu magni og því einungis leyft í takmörkuðu magni og í mjög fá matvæli.

Aukefni sem byrja á 400 eru bindiefni. T.d. E 401 algínat, E 414 arabískt gúmmí og E460 sellulósi. Þau eru ýmist unnin úr þörungum, soja eða gerjuðum kolvetnum. Þau eru mikið notuð í allskonar matvæli til dæmis til að þykkja, koma í veg fyrir að matvælin skilji sig, verði kekkjótt, klessist eða lyfti sér ekki. Þau eru sögð óskaðleg eins og flest aukefni.

Veljum okkur eitt dæmi úr máltíð hjá Skólamat til að skoða og margur myndi segja að hér væri fullt af E efnum.

Kjúklingasnitsel (kjúklingabringur (85%), raspur (hveiti, vatn, ger, salt, krydd, sykur, repjuolía, litarefni (E100, E160), sýrur (E262, E331), þráavarnarefni (E316)).

Ef vel er að gáð er hér um að ræða kjúklingabringur með raspi og raspurinn er brauð sem hefur verið þurrkað og malað niður. Hér er E 100 og E 160 notað til að fá rauðan/gulan lit á raspinn. E 100 er túrmerik unnið úr túrmerik rótinni og E 160 er karótín unnið úr gulrótum. E262 er unnið úr ediksýru og E331 er unnið úr sítrónusýru (finnst t.d. í ávöxtum) og eru þessi aukefni oft notuð í hveiti til að bæta bökunareiginleika þess. E 316 er ákveðið form af C vítamíni og er notað til verja repjuolíuna fyrir þránun.

Í þessu dæmi eru aukefnin alveg jafn skaðlaus og hráefnin. Þeir sem eru með glútenóþol myndu ekki borða þessa vöru vegna hveitisins.

Ef við viljum forðast aukefni eins og hægt er þá þurfum við að huga að eftirfarandi:

Versla eins hrein matvæli og við getum (hreint kjöt, hreinan fisk, ómeðhöndlað grænmeti og ávexti (ýmist ferskt eða frosið), hreinar og þurrar kornvörur, baunir og linsur. Búa til matvæli eins og majones, sósur, súpur, krafta og þess háttar sjálf frá grunni og nota innan fárra daga.

Það verður erfitt fyrir fyrirtæki eins og Skólamat að útiloka öll aukefni úr þeim matvælum sem þau bjóða upp á, bæði vegna öryggis þeirra en líka vegna krafa um framboð og fjölbreytni. Hins vegar er  reynt að kappkosta við að takmarka notkun þeirra eins og kostur er.

Það er vonandi að greinin hafi svarað einhverjum af þeim spurningum sem brenna á foreldrum og forráðmönnum vegna aukefna í matvælum.

Með bestu kveðju,

Guðrún Adolfsdóttir matvælafræðingur hjá Sýni ehf.

 

 

Aftur í fréttalista