12. desember 2023

Matarvenjur barna á Íslandi

Matarvenjur barna á Íslandi

Matarvenjur
Venjur eru hegðun eða hugsanir sem við framkvæmum reglulega og verður með tímanum ómeðvitað
viðbragð í aðstæðum. Börn eru einstaklega móttækileg fyrir venjum hvort sem þær eru góðar eða
slæmar og er því mikilvægt fyrir foreldra og forráðamenn barna að skapa þeim frá upphafi góðar
matarvenjur. Góðar matarvenjur stuðla að heilbrigði og vellíðan í tengslum við mat seinna á lífsleiðinni.

Fyrirmynd
Mikilvægt er að velta því fyrir sér hvernig matarvenjur, þið sem fjölskylda, viljið tileinka ykkur í kringum
matmálstímann. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna í flestu og er matarræði og borðsiðir þar engin
undantekning. Börn vilja verja sem mestum tíma með foreldrum sínum og vera hluti af þeirra daglega
amstri. Það getur því verið góð samvera að leifa barninu að vera virkur þáttakandi við undirbúning og
frágang í kringum matmálstíma, allt eftir getu og aldri barnsins.
Höfum það hugfast að börn gera það sem þau sjá frekar en að fara eftir því sem þeim er sagt.
Stuðlum að góðum matarvenjum.


Í nútímasamfélagi ríkir oft mikill erill og getur verið erfitt að finna tíma fyrir alla fjölskylduna að borða
saman. En þrátt fyrir það er gott að reyna að halda sig við þá reglu að við borðum með börnunum
okkar. Matartíminn er tilvalinn tími til fyrir samveru og umræðum um lífið og tilveruna, skapa rólegt
umhverfi og stuðla þannig að jákvæðum matarvenjum.


Hluti af félagslegum þroska barna mótast við matarborðið og hér er því kjörið tækifæri að kenna
kurteisi og viðeigandi borðsiði. Góður ávani er að leggja símann frá sér áður en sest er við matarborðið,
það gefur okkur tækifæri á að njóta betur, bæði matarins sem við borðum og nærveru þeirra sem eru
við borðið.


Allt snarl utan matmálstíma hefur áhrif á matlyst og er því gott að lágmarka það til að auka líkur á
ánægjulegum og farsælum matartíma, en ef gefið er millimál er skynsamlegt að hafa það í hollari
kantinum og í litlum skömmtum. Við sjálft matarborðið er gott að hafa það sama í boði fyrir alla
fjölskyldumeðlimi en á sama tíma tryggja að hafa alltaf eitthvað á borðstólnum sem líklegt er að barnið
vilji borða í stað þess að bjóða annan mat í staðinn.


Börn eru með óþroskaða bragðlauka og það tekur tíma fyrir bragðskynið að þroskast. Þau eru gjarnan
rög að bragða á nýjum fæðutegundum en það er um að gera að hvetja börn til að smakka, en aldrei
þvinga eða hóta. Það getur tekið börn allt að 15 skipti að venjast nýjum mat, það er því mikilvægt að
gefast ekki upp heldur halda áfram að bjóða barninu upp á fjölbreyttan mat.


Matardiskar fyrir börn eru oft hólfaskiptir og ekki að ástæðulausu, ung börn vilja hafa matinn sinn
aðskilinn. Þau vilja geta valið hvað þau borða, smakkað, fundið bragð, lykt og áferð af einstaka
matvælum. Það er því góð hugmynd að hafa matinn á borðstólnum aðskilinn fyrir börn og leifa þeim
að skammta sér sjálf, en að sjálfsögðu innan skynsemismarka. Með aldrinum verða börn svo
móttækilegri fyrir blandaðri réttum og áferðum.


Hollari kostur
Hollur og fjölbreyttur matur frá unga aldri leggur grunninn góðum matarvenjum, huga skal því að
fjölbreyttu fæði í hæfilegu magni. Í því hraða samfélagi sem við lifum í dag getur verið auðvelt að grípa
fljótleg eða tilbúin matvæli, en þau matvæli innihald oft meiri sykur, harða fitu og mikið salt. Hér eru
nokkrar hugmyndir af hollari kosti:
Munum að vatn er besti drykkurinn við þorsta

  • Velja grófara brauð úr heilkorni, heilkornapasta og hýðishrísgrjón í staði fínunninna vara
  • Velja jógúrt, skyr og drykki sem eru ósykraðir og án sætuefna
  • Veljum okkur hnetu-, ávaxta- eða grænmetissnakk í staðinn fyrir köku, kex eða snakk.
  • Notum jurtaolíur t.d. sólblóma- eða ólífuolíu, í staðinn fyrir smjör, smjörlíki eða kókosfeiti til að
    draga úr neyslu mettaðrar fitu.
  • Reynum alltaf að velja matvæli sem eru nær uppruna sínum í stað tilbúinna eða mikið unninna
    matvæla.


Samvera
Að lokum koma nokkrar hugmyndir af verkefnum fyrir börn í kringum matmálstíma sem bjóða upp á
samveru og virkja þátttöku barna, þar að auki að örva málþroska og þjálfa fín- og grófhreyfingar:

  • hræra í pottum
  • telja kartöflur
  • mæla t.d. með mælikönnu eða skeiðum
  • skera grænmeti og ávexti
  • leggja á borð
  • ganga frá disknum sínum í vaskinn
  • vaska upp / sulla í vaskinum


Eftir því sem börnin eldast geta verkefnin verið flóknari og er um að gera að fá eldri börn og unglinga
til að taka þátt í innkaupum og eldamennsku.


Gangi ykkur vel.


Elísabet Jónsdóttir,
Matvælafræðingur.


Upplýsingar fengnar af heimasíðu Landlæknis (https://island.is/s/landlaeknir) og Heilsuveru
(https://www.heilsuvera.is/ )

Aftur í fréttalista