Stefna

Gæði umfram allt

Skólamatur vinnur eftir ströngum gæðastöðlum við undirbúning og framleiðslu máltíða, hreinlætiseftirlit og rannsóknir á hráefni og aðföngum. Úrtakskannanir eru gerðar á hráefni á rannsóknarstofunni Sýni. Þar er það efnagreint og innihaldslýsingar birgja sannreyndar. Hjá fyrirtækinu starfar næringarfræðingur og tryggir samstarf hans við matreiðslumeistara að allur matur innihaldi þau næringarefni sem nemendum, starfsfólki og öðrum viðskiptavinum eru nauðsynleg. Skólamatur notar aðeins hágæða hráefni og er allt kjöt, fiskur og kartöflur frá viðurkenndum íslenskum framleiðendum. Hvorki MSG né matarolía með transfitusýrum er notuð í matinn.

Lokaeldun fer fram í mötuneytunum sjálfum nema þar sem aðstaða er ekki fyrir hendi en þá er maturinn fulleldaður í eldhúsi Skólamatar og sendur í mötuneytin í hitakössum. Á hverjum degi er boðið upp á ferskt grænmeti og ávexti í meðlætisbar og sér starfsfólk mötuneytanna um að brytja það niður og bera fram.

Hollt, gott og aukið val

Matreiðslan okkar er í stöðugri þróun og má því fyrst og fremst þakka samstarfi starfsfólks okkar við foreldra, kennara, grunnskólabörnin sjálf og aðra viðskiptavini. Matvælaframleiðendur geta til að mynda framleitt hráefni samkvæmt séróskum þessara aðila. Fyrirtækinu er auk þess mikið í mun að forráðamenn grunnskólanemenda og aðrir viðskiptavinir fyrirtækisins séu vel upplýstir um þann mat sem í boði er. Í því skyni eru allir næringarútreikningar og innihaldslýsingar birtar á heimasíðunni. Áhugi almennings á mat hefur stóraukist hin síðari ár og er það vel. Fyrir vikið eru auknar kröfur gerðar um fjölbreytileika í matargerð og hollustu. Reynsla Skólamatar sýnir þó að grunnskólabörn eru ekki alltaf eins nýjungagjörn og foreldrar þeirra og kjósa heldur einfaldan, hefðbundinn en umfram allt góðan mat. Hefðbundinn matur á borð við grjónagraut, fiskibollur, kjötbollur og steiktan eða soðinn fisk er vinsæll og helst vilja ungir áskrifendur að maturinn sé framreiddur á einfaldan hátt. Starfsfólk Skólamatar útbýr frá grunni sínar fiskbollur, fiskbuff, plokkfisk, súpur, grauta og lasanja svo eitthvað sé nefnt. Eins ber að nefna að óskir og ábendingar barna og starfsfólks hafa m.a. orðið til þess að áskrifendur fá að velja grænmeti og ávexti úr meðlætisbar. Eftir að það fyrirkomulag var tekið upp þrefaldaðist neysla grænmetis og ávaxta og við fögnum því.

Matarvenjur ráðast ekki eingöngu af smekk heldur einnig af óviðráðanlegum þáttum eins og fæðuóþoli eða ofnæmi. Þegar svo er býður Skólamatur upp á sérfæði gegn framvísun læknisvottorðs.

Með tilliti til alls þessa má ljóst vera að Skólamatur leggur ríka áherslu á að matseðlar séu vandaðir og vel samsettir. Á sérstökum matseðlafundum fyrirtækisins koma einstaklingar með ólík sjónarmið sér saman um samsetningu matseðlanna. Fundina sitja matreiðslumeistari, næringarfræðingur, rekstrar-, framkvæmda- og mannauðsstjóri ásamt yfirmanni sérfæðisdeildar og svæðisstjórum. Þar er þess vandlega gætt að einkunnarorð Skólamatar endurspeglist í matseðlunum, þ.e. að maturinn sé umfram allt hollur, góður og heimilislegur.


Minni matarsóun

Með sjálfskömmtum viljum við stuðla að minni matarsóun

Lesa meira
Sími: 420 2500
8:00 - 16:00