Saga Skólamatar

Barnið þitt á heimtingu á staðgóðum mat í skólanum sínum. Það er okkur hjartans mál. Til að svo verði þarf að bera á borð máltíðir sem standast nútímakröfur um næringargildi og ferskleika og hvika aldrei frá gæðastöðlum.

Með því að ráðast í verkið af heilum hug á degi hverjum stuðlum við að bættri líðan barna og aukum getu þeirra til að sinna leik og starfi. Um leið öðlumst við traust foreldra sem við metum mikils.

 

Sagan

Skólamatur ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum.

Fyrirtækið Skólamatur ehf. var stofnað í janúar 2007 en áður hafði Matarlyst ehf. rekið skólamötuneyti sem eina einingu innan fyrirtækisins. Fyrirtækið er í eigu Axels Jónssonar matreiðslumeistara sem hefur áratuga reynslu af alhliða veitingarekstri. Áhugi Axels fór að beinast að heitum skólamáltíðum eftir setu sína í skólanefnd Keflavíkurbæjar 1990. Út frá reynslu sinni þróaði hann viðskiptahugmynd sem varð  að veruleika 1999 þegar hann hóf að bjóða börnum leik- og grunnskólum upp á hollar máltíðir, sérstaklega ætlaðar orkumiklum krökkum sem hafa þörf fyrir næringarríkan mat í erli dagsins.

Skólamatur rekur yfir 60 eldhús á suðvesturhorni landsins og eru starfsmenn þess rúmlega 170. 

 

Gæði

Við leggjum allt upp úr ferskleika hráefnisins sem notað er í daglegar máltíðir. Máltíðirnar eru eldaðar frá grunni eftir einföldum uppskriftum. Til gamans má geta að sumir réttirnir eru eldaðir eftir hollum og kjarngóðum uppskriftum Jónu Gísladóttur, móður Axels. Á sama tíma og við höldum í rótgrónar hefðir og venjur erum við stöðugt að þróa matreiðsluaðferðir, uppskriftir og vinnulag enda uppbygging og framþróun afar mikilvæg í matvælageiranum.

Við viljum veita viðskiptavinum okkar hollan mat og sem dæmi má nefna þá notum við kornmeti úr heilum höfrum, leggjum áherslu á íslenskt hráefni og allur matur frá Skólamat er laus við transfitusýrur.

Maturinn er framleiddur og undirbúinn í framleiðslueldhúsi okkar í Reykjanesbæ. Eftir framleiðslu og samsetningu, sendum við matinn beint í eldhúsin eða snöggkælum hann eða frystum til að halda ferskleikanum og rétta bragðinu. Maturinn er ávallt eldaður og borinn fram samdægurs. Lokaeldun fer fram í mötuneytunum sjálfum rétt áður en að matartíma kemur. Á hverjum degi bjóðum við upp á aðalrétt og hliðarrétt sem ávallt er vegan. Við bjóðum ávallt upp á ferskt grænmeti og ávexti í meðlætisbar og sér starfsfólk eldhúsanna um að brytja það niður og bera fram.

Skólamatur vinnur eftir gæðahandbók sem stjórnendur hafa unnið að í samstarfi við Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf. og er markmið hennar að tryggja sem best öryggi allra þeirra sem nýta þjónustu fyrirtækisins. Gæðahandbókin byggir á HACCP eftirlitskerfinu.

Stefna okkar hjá Skólamat er að lifa í sátt við umhverfi okkar og náttúruna. Við vinnum markvisst að því að lágmarka matarsóun, flokkum og endurvinnum umbúðir og annað sem til fellur. Lífrænn úrgangur er vigtaður í öllum eldhúsum sem Skólamatur þjónustar og þær upplýsingar eru skráðar. Við gætum þess einnig að notast við umhverfisvottaðar sápur og hreinsiefni.


Matseðlarnir okkar eru vandaðir og vel samsettir. Reglulegir fundir með fagmönnum og fulltrúum neytenda eru haldnir til þess að ólík sjónarmið komi fram og hagsmunum neytenda sé gætt í hvívetna við samsetningu matseðlanna.Sími: 420 2500
8:00 - 16:00