7. febrúar 2024

Sykurneysla barna

Sykurneysla barna

„Bless og takk fyrir komuna“, segir brosandi en uppgefið foreldri þegar það kveður síðasta barn afmælisveislunnar. Foreldrið hugsar með sér að í næsta barnaafmæli verði ekkert nammi á boðstólnum, vatn að drekka og sykurlaus kaka, þessi sykur fer svo illa í blessuð börnin og gassagangurinn svo mikill. Kunnugleg hugsun? En er sykurinn eins slæmur og orðspor hans gefur til kynna? Skoðum það nánar.

Byrjum á að kynna okkur hvað sykur raunverulega er. Sykur er í daglegu tali notað sem samheiti yfir sykrur, en sykrur eru kolvetni sem teljast til orkuefna. Við meltingu er sykrum breytt í glúkósa og þannig nýtt sem eldsneyti í frumum líkamans. En til að skilja hvort sykrur eru slæmar eða góðar þurfum við að þekkja uppbyggingu sykra og hvernig líkaminn okkar vinnur úr þeim.

Einfaldar sykrur = Einföld kolvetni = Snögg orka
Undir þetta falla þrjár tegundir sykra. Einsykrur sem er minnsta form sykra, dæmi um einsykrur eru glúkósi, frúktósi og galaktósi. Tvísykrur eru tvær einsykrur sem tengjast, dæmi um tvísykru er súkrósi (borðsykur) sem gerður eru úr glúkósa og frúktósa. Svo er það fásykrur þar sem 2-9 einsykrur tengjast. Þessar tegundir sykra leysast vel upp í vatni og eru sætar á bragðið. Þær leysast einnig auðveldlega upp í meltingarvegi og einsykrur þarf ekki einu sinni að melta. Þessar sykrur gefa okkur því snögga orku sem aftur á móti dugar oft skammt. Ef líkaminn fær einfaldar sykrur umfram orkuþörf breytir hann sykrunum í fitu til notkunar í framtíðinni.
Dæmi um matvæli sem innihalda einfaldar sykrur eru mikið unnar kornvörur eins og hvítt brauð og pasta, ávaxtasafar og matvæli sem innihalda viðbættan sykur.

Flóknar sykrur = Flókin kolvetni = Trefjar sem eru góðar fyrir meltinguna
Hér er átt við fjölsykrur, þær eru gerðar úr 10 eða fleiri einsykrum, en yfirleitt úr mörg hundruðum eða þúsundum. Fjölsykrur eru oft bragðminni en einfaldar sykrur og eru ill meltanlegar. En í stað þess að melta fjölsykrurnar nýtir líkaminn þær sem trefjaefni sem eru nauðsynlegar fyrir meltinguna og stuðlar að virkni í þörmum og ristli og þannig að heilbrigðum hægðum. Trefjarík matvæli innihalda oftast mun minni orku miðað við rúmmál en önnur matvæli, trefjaefni dvelja einnig lengur í meltingarvegi og geta hægt á upptöku sykurs.
Dæmi um trefjarík matvæli eru heilir ávextir, heilkorn og baunir.

En er sykur þá nokkuð svo slæmur?
Sykra, eða kolvetni, er nauðsynlegt orkuefni fyrir líkamann og börn þurfa orku til að halda í við hraðan þroska og mikla hreyfiþörf. Einnig eru flókin kolvetni mikilvæg uppspretta trefja. En mikilvægt er að velja vel. Samkvæmt ráðleggingum um matvæli frá embætti landlæknis kemur fram að „Neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum. Mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur aukið líkur á sykursýki af tegund 2„ og enn fremur „Vörur sem innihalda mikið af viðbættum sykri veita oftast lítið af nauðsynlegum næringarefnum og öðrum hollum efnum“.
Með því að velja kolvetnarík matvæli sem ekki eru mikið unnin og innihalda ekki viðbættan sykur erum við að velja vel.

Matvæli sem innihalda sykur
Matvælaframleiðendur eiga það til að hanna matvælaumbúðir þannig að þær dragi að sér athygli barna, en það er ekki þar með sagt að matvælin séu holl fyrir börn, eða fullorðna. Þessum matvælum fylgir oft löng og flókin innihaldslýsing sem foreldrar eiga oft erfitt með að klóra sig í gegnum. Stundum eru notuð fræðileg heiti fyrir sykur í innihaldslýsingu, það má þekkja þau á að oftast enda þau á „-ósi“ (e. „-ose“) samanber frúktósi og glúkósi. Síróp, hunang, melasi og ávaxtaþykkni eru einnig tegundir af sykri sem oft má sjá í innihaldslýsingum. Ef að matvæli innihalda sykur af náttúrunnar hendi þarf að skoða næringargildistöfluna til að átta sig á sykurmagni.

Sætuefni
Vegna vitundarvakningar um skaðsemi sykurs hafa framleiðendur brugðið á það ráð að fjarlægja viðbættan sykur úr ýmsum vörum og merkja þær „án viðbætts sykurs“ en nær undantekningarlaust innihalda þær vörur sætuefni í staðin. Samkvæmt ráðleggingum um matarræði frá embættis landlæknis segir: „Ekki er mælt með að velja vörur með sætuefnum frekar en með viðbættum sykri“. Sama gildir um gosdrykki sem innihalda sætuefni, þrátt fyrir að þeir innihaldi ekki sykur innihalda þeir sýrur líkt og sykraðir drykkir sem eyða glerungi tanna. Matvæli með sætuefnum má ekki merkja með Skráargatinu, merki sem auðvelda á neytendum að velja hollari matvöru.

Af hverju þráum við sykur
Því hefur verið kastað fram að þessi mikla löngun nútímamannsins í sykur sé í raun leifar frá forfeðrum okkar. Ávextir gefa okkur mun meiri orku en grænmeti, en erfiðara var að nálgast ávexti sem oft uxu hátt upp í trjám á meðan grænmeti óx úr mold, það þurfti því sterka löngun í ávexti til að sækja þessa miklu orku sem gaf kraft og betri lífslíkur. Þessi löngun hefur því mögulega fylgt okkur í gegnum þróunarsöguna, hver veit.
Í dag krefst það ekki mikils erfiðis að nálgast sykurríkar vörur, ávextir eru ræktaðir í miklu mæli, nýttar eru aðferðir sem draga sykrur úr sínu náttúrulega formi og þeim bætt í hin ýmsu matvæli eða til sælgætisframleiðslu. Þetta gerir það að verkum að auðvelt er að neyta sykurs í meira magni en líkaminn þarf og hafa rannsóknir svo bent til þess að sykurneysla geti orðið ávanabindandi.

Sykurneysla barna á Íslandi og hvað er til ráða
Sykurneysla meðal ungs fólks og 6 ára barna var síðast könnuð á árunum 2010-2012. Í þeirri könnun kom fram að sykurneysla þeirra var yfir ráðlagðri hámarksneyslu, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnun ráðleggur að neysla á viðbættum sykri ætti að vera undir 10% af heildarorku. Ísömu könnun kom einnig fram að „Sælgæti, ís, kex, kökur og drykkir aðrir en mjólk veita samtal um 60% af viðbættum sykri í fæðu sex ára barna“. Lítil gæði kolvetna endurspeglast svo enn frekar í lítilli neyslu trefja.
Árið 2016 gaf velferðarráðuneytið út lýðheilsustefnu þar sem meginmarkmiðið var að stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu. Í maí 2019 gaf Embætti landlæknissvo út „Aðgerðaráætlun til að draga úr sykurneyslu“. Þar eru nefndar aðgerðir líkt og skattaálögur á sykraða drykki en lækka á móti skatta á hollum vörum, heilsueflandi starf samfélags, skóla og vinnustaða og setja upp gott vöktunarkerfi til að fylgjast með þróuninni. Í áætluninni er svo sérstaklega komið inn á að draga þurfi úr markaðssetningu á óhollum matvælum sem beint er að börnum t.d. á netinu, í smáforritum eða á íþróttaviðburðum, og einnig að draga úr kostun (e. sponsorship) á slíkri markaðsetningu.

Til foreldra
Mikilvægt er að huga vel að matarræði barna okkar og tryggja fjölbreytta fæðu. Kolvetni eru mikilvægur orkugjafi sem ekki ætti að sniðganga, en velja þarf vel og velja kolvetnarík matvæli sem einnig innihalda trefjar. Sem dæmi, að velja heldur heila appelsínu eða epli og heilkornabrauð sem innihalda trefjar og önnur næringarefni, heldur en ávaxtasafa og hvítt brauð. Halda sætindum og sykruðum gosdrykkjum í algjöru lágmarki, munum að vatn er besti svaladrykkurinn. Skoðum innihaldslýsingar vel og gleypum ekki við glysgjörnum umbúðum framleiðanda og eftir bestu getu að sneiða hjá matvælum sem innihalda viðbættan sykur. Verum meðvituð um að matvæli með sætuefnum eru ekki sjálfkrafa holl.
Stjórnvöld hafa vissulega reynt að leggja sitt af mörkum til að reyna að sporna við aukinni sykurneyslu almennings og þá sér í lagi barna, en það eru fyrst og fremst við sjálf sem stjórnum okkar neyslu og erum fyrirmyndir barna okkar. Hvað barnaafmælin varðar ætti að vera óhætt að bjóða upp á hóflegar veitingar sem innihalda sykur samhliða hollari kosti, sykurinn er þó ólíklega ástæða gassagangsins, það er alltaf fjör í barnaafmælum.

Gangi ykkur vel.
Elísabet Jónsdóttir, matvælafræðingur.

Aftur í fréttalista